fbpx

Arnarvatnsheiði

Ég var með góðann hóp af miklum veiðimönnum frá Tékklandi og Póllandi á Arnarvatnsheiðinni í byrjun sumars og þó það hafi verið skýjað og úrkoma allann tímann þá létu þessi kappar það ekkert á sig fá.  Ræs var um kl. 6 á morgnanna  og hent var á pönnu ca 24 eggjum, beikoni, graslaukur og borið fram með brauði og heitu te.  Allt var klárað því heitur matur var ekki aftur á boðstólnum fyrr en eftir 16 klst.

Ég hef sjaldan séð álíka úthald eins og hjá þessum mönnum.  Við  fórum víða um heiðina en best var þá við stóra lón en þar komu fiskar sem losuðu 6 pund 60 cm og stærra.  Arnarvatn litla gaf okkur fallegar bleikjur og var Langskeggurinn klárlega besta flugan .  Með í hópnum var meðal annars læknir og dýralæknir og gert var grín af þvi að þegar læknirinn gæti ekki gert meira fyrir menn og menn komnir á fjórar lappir vegna þreytu þá fengi dýralæknirinn að taka við.  Síðasta daginn var haldið á nýjar slóðir og ákvað ég að reyna nýtt vatn sem ég hafði aldrei veitt í áður. Eftir að hafa verið 2 klst gangi frá vaði voru mínir menn orðnir ansi lúnir og vildu ekki fara lengra enda búnir að vera veiða sjö daga í röð og þar af fjórir sem voru fjórtánda daginn í röð að veiða.  Ég lofaði þeim stærri fiskum og mikið af þeim sem var nú reyndar loforð út í bláinn en sem betur fer þá var hún þessi blessaða veiðigyðja sem við veiðimenn viljum svo oft hafa með okkur heldur betur í stuði.

Fyrsti fiskurinn var 5 punda bleikja svo kom 6 punda og svo kom 7 punda bleikja  !  þetta var rosalegt, allir voru í fiski og þvílikar kusur, flestar á bilinu 3 – 6 pund og svoleiðis spikfeitar að annað eins hef ég bara ekki séð á heiðinni.  Bleik og blá var undir hjá mér og einnig voru litlir nobblerar að virka vel.  Við hættum að veiða þegar kassi númer 2 var fullur enda allir komnir með nóg og frábært að enda túrinn með allt að 7 punda bleikjum.

[]
Verified by MonsterInsights